7.3.2009 | 02:44
Stjórnlagaþing án stjórnmálaflokka
Sjálfstæðismenn virðast ekki sjá neinn tilgang með því að þjóðin fái nýja stjórnarskrá. Þeir hrópa hátt að það sé ekki það sem hún þarfnist og nefna uppblásnar kostnaðartölur til að styðja sinn slæma málstað.
Reyndar er frumvarp ríkisstjórnarinnar hreint ekki gallalaust enda væri það saga til næsta bæjar ef Framsóknarflokkurinn ætlaði sér ekki að fá bita af kökunni. Hér fyrir neðan er hins vegar útfærsla sem "Samtök um lýðræði og almannahag" sendi frá sér og Borgarahreyfingin hefur nú gert að sinni. Kostnaður yrði allavega ekki neitt í líkingu við það sem Birgir Ármannsson heldur fram í fréttinni. Skyldi Birgir vera jafn slakur í reikningi og hann er sem málsvari almennings á Alþingi?
Kjör til stjórnlagaþings og endurskoðun stjórnarskrár
Tilkynning frá Samtökum um lýðræði og almannahag
Samtök um lýðræði og almannahag eru samtök fólks sem er fyrst og fremst lýðræðissinnað og krefst þess að Íslandi verði hér eftir stjórnað með hagsmuni almennings í huga. Samtökin krefjast þess að það fari fram endurskoðun á stjórnarskránni og að sú endurskoðun verði gerð af almenningi og fyrir almenning.
Samtökin eru óháð stjórnmálaflokkum og berjast fyrir almannahag og lýðræðis- samfélagi sem hafnar forræði og forréttindum stjórnmálaflokka samtímans. Samtökin telja augljóst að ríkisstjórnir Íslands til langs tíma og stjórnmálaflokkarnir að baki þeim hafi glatað öllum tengslum við raunverulegt líf fólksins í landinu.
Samtökin telja einnig að allir núverandi stjórnmálaflokkar séu með einum eða öðrum hætti bundnir á klafa sérhagsmuna og/eða hugmyndafræði sem sé andstæð víðtækum almannahagsmunum og að augljóst sé að nánast öll stjórnarandstaða, hverju nafni sem hún nefnist, bíði ætíð og aðeins eftir að komast að nægtaborðinu sjálf.
Samtökin telja endurskoðaða stjórnarskrá brýnasta mál samtímans og eru sannfærð um að aldrei fyrr hafi verið eins mikil þörf á að endurskoða stjórnarskrána og endurreisa lýðræði á Íslandi, ef landið eigi áfram að teljast til vestrænna lýðræðisríkja.
Til að hagsmuna almennings verði gætt við endurskoðun stjórnarskrárinnar telja Samtökin grundvallaratriði að sú vinna fari fram á sérstöku stjórnlagaþingi sem verður án beinnar aðkomu stjórnmálaflokka og verði með eftirfarandi hætti:
- Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis. Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.
- Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af 5 manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum. Æskilegt er að a.m.k. 2 af hópnum séu erlendir sérfræðingar.
- Stjórnlagaþingið skal endurskoða allar greinar stjórnarskrárinnar og hafa til hliðsjónar þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í stjórnarskrárnefnd sem og taka við tillögum frá almenningi, jafnt einstaklingum sem hópum. Fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar og aðsendum tillögum skal finna stað ef hægt er, en þó ætíð með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.
- Endurskoðun stjórnarskrárinnar skal lokið á 3 mánuðum, drögin send til umsagnar hjá innlendum og erlendum sérfræðingum og tilheyrandi alþjóðastofnunum og að því loknu lögð fram til víðtækrar kynningar í einn mánuð.
- Að lokinni kynningu verður ný stjórnarskrá borin undir þjóðaratkvæði.
![]() |
Stjórnlagaþing fyrir 1,5 milljarða? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)