Þröngsýn heimssýn

Það kemur líklega fáum á óvart að stjórn þessara rangnefndu samtaka skuli vilja láta draga ESB-umsókn Íslands til baka sem meirihluti Alþingis samþykkti með atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum.

Frá aðalfundi samtakanna 2009Hafandi verið virkur í náttúru- og umhverfisvernd í mörg ár og meðlimur í þess háttar fjárvana samtökum skil ég samt ekki alveg hvaðan þessir "sjálfstæðissinnar í Evrópumálum" fá fjármagn til að reka samtökin sín sem hika ekki við að senda 9 manna sendinefnd til fundar með systursamtökunum í Noregi, "NEI til EU".

Nú efast ég ekki um að einhverjir styðji við samtökin með frjálsum framlögum en það kostar skildinginn að reka skrifstofu, birta auglýsingar og senda fólk út um víðan völl. Væri ekki við hæfi að birta upplýsingar um það á heimasíðunni hvernig samtökin eru fjármögnuð? Gagnsæi og svoleiðis nokkuð sem amk. einum nýkjörnum stjórnarmanni samtakanna hefur orðið tíðrætt um.


mbl.is Vilja að ESB-umsókn verði dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama sullið - sama bullið

Ég hef sagt þetta áður og ég segi það enn og aftur: Þingmenn vilja flestir hverjir ekki auka aðkomu almennings að ákvarðanatökum og standa vörð um flokksræðið hvað sem tautar og raular. Í orði kveðnu segja þau öll sem eitt að þau séu lýðræðissinnar í hjarta og vilji aukið gagnsæi í málum hins opinbera en þegar til kastanna kemur standa þau vörð um leyndarhjúpinn og þau völd sem fyrirrennarar þeirra og flokkarnir hafa markvisst tekið sér í áranna rás.

Þessir miklu "lýðræðissinnar" á Alþingi eru nú hver um annan þveran á móti því að samþykkja breytingar á kosningalögunum. Að eigin sögn er það vegna þess að frumvarpið:

  • gangi of stutt í átt til persónukjörs (er þá skárra að breyta engu?)
  • tryggi ekki jafnrétti kynjanna (fremur en núgildandi lög)
  • sé of seint á ferðinni (ennþá 6 mánuðir til næstu kosninga)
  • hafi ekki fengið nægilega umræðu (er nú lagt fram í þriðja sinn á árinu)
  • sé ekki forgangsmál á tímum sem þessum (hvenær þá í ósköpunum?)
  • innihaldi hugsanlega ekki með bestu aðferðina (engin aðferð er fullkomin)

Sama sullið - sama bulliðMér hefði ekki dottið í hug að ég ætti eftir að vitna mikið í Styrmi Gunnarsson, f.v. ritstjóra Moggans, en í gær sagði hann hluti um lýðræðið á Íslandi sem ég hefði varla getað orðað betur. Hann vill þróa fulltrúalýðræðið yfir í átt að beinu lýðræði þar sem almenningur fær raunverulega að taka afstöðu í stórum ákvarðanatökum. Hann sagði m.a.:

"Við erum komin í ógöngur með þetta samfélag vegna allra þessara tengsla og við þurfum að finna leiðir út úr því."

"Ég held að það sé eina leiðin til þess að komast út úr þeim ógöngum sem við erum komin í í sambandi við þetta hrun, þ.e. að fara leið lýðræðisins sem er í raun og veru það sem að fólkið á götunni var að kalla eftir hér í desember og janúar."

"Nú hljóta að hefjast átök í þessu landi um það hvort við eigum að brjótast út úr því þjóðfélagi sem við höfum búið í sem er haldið öllum þessum meinsemdum og þessum veikleikum - hvort við eigum að brjótast út úr því eða hvort við hverfum aftur inn í þetta gamla samfélag okkar sem að reynslan sýnir að gengur ekki lengur upp. Mér finnst þetta vera það sem hin pólitíska barátta næstu misserin og árin hlýtur að snúst um og ég efast ekki um það að ákveðnir hópar í öllum flokkum munu berjast gegn öllum svona breytingum."

Þetta er mergurinn málsins og nú bíð ég spenntur eftir því að standa við hlið Styrmis fyrir utan Alþingi með kröfuspjöld og steikarpönnur á lofti. Generalprufan sl. vetur tókst nokkuð vel en nú er farið að líða að sjálfum viðburðinum. Hinir "opnu gluggar út á Austurvöll" sem sumum alþingismönnum hefur orðið tíðrætt um gera lítið gagn ef þau sem fyrir innan sitja vilja hvorki sjá, heyra né skilja kröfur fólksins.


mbl.is Er persónukjörið að falla á tíma í þinginu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband