Blórabögglar

Í ballarhafiÍ dag er sorgardagur því að meirihluti Alþingis hefur lagt blessun sína yfir að almenningur sé gerður ábyrgur fyrir glæpsamlegri starfsemi einkaaðila. Fulltrúar smáþjóðar norður í ballarhafi hafa samþykkt að gera þjóð sína að blóraböggli í vanhugsaðri reglugerð ESB þrátt fyrir að öll réttlætissjónarmið séu fyrir borð borin. Þau lögðu hart að sér að útbúa alls kyns fyrirvara sem breskir dómstólar geta stungið undir stól en hversu hart lögðu þau að sér að ná eyrum annarra Evrópuþjóða til að útskýra stöðu Íslands og krefjast sameiginlegrar ábyrgðar?

Illt er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti.


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón eða séra Jón

Þetta er enn og aftur spurning um réttlæti. Hvorki Guðmundur Andri né ég áttum kost á kúluláni fremur en almennir borgarar í þessu landi þegar við fjárfestum sparifé okkar í fasteignum. Valið stóð á milli þess að taka verðtryggð lán á háum vöxtum eða gengistryggð lán nokkuð lægri vöxtum. Bankarnir sömdu lánasamningana einhliða og bjuggu svo um hnútana að áhætta þeirra var engin. Þeir voru bæði með belti og axlarbönd en okkur var gert að setja allt að veði, ekki bara umræddar fasteignir heldur allt.

Þrátt fyrir þetta tókst stjórnendum bankanna ekki að halda þeim á floti. Frjálsi Fjárfestingarbankinn er rekstrarlega liðið lík og er það með ólíkindum miðað við það sem að ofan er lýst. Okkur sem fjárfestum að hluta til með lánsfé frá bankanum er nú sagt að við séum ekki "fjárfestar" samkvæmt skilgreiningu bankans og þess vegna ekki þess verðir að semja um yfirtöku okkar eigin skulda. Kúlulána-Kristján fengi hins vegar aðrar móttökur enda nokkuð vel giftur. Það er ekki sama að vera Jón eða séra Jón í þessu landi, það er margsegin saga.

Engu að síður mjög góð hugmynd hjá Guðmundi Andra svo langt sem hún nær.


mbl.is Vilja taka yfir Frjálsa fjárfestingabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreyttur, reiður og illa fyrir kallaður

Sumir stjórnmálamenn segjast hafa prófað kannabisreykingar án þess að hafa tekið ofan í sig. Því eiga flestir erfitt með að trúa. Þeir flækjast í eigið net ósanninda og hefðu eflaust betur viðurkennt "syndir" sínar strax og þeir urðu uppvísir að þeim.

Þreyttur og reiðurSigmundur Ernir fer svipaða leið jafnvel þó að áfengisdrykkja sé alls ekki ólögleg. Með þessu hefur hann ekki einungis gert sig að athlægi í ræðustól Alþingis heldur líka að ótrúverðugri smásál sem ekki þorir að játa á sig tímabundið dómgreindarleysi.

Hvað títtnefnda "virðingu" Alþingis varðar mun þetta atvik litlu skipta. Einungis 13% þjóðarinnar báru virðingu fyrir löggjafarþinginu sl. vetur og sú tala hefur tæpast hækkað síðan þá. Kannski væri það athugunarvert að hafa vín í boði mötuneytis þingsins og sjá hvort það yki ekki á djörfung og dugnað þingmanna. Verra gæti það varla orðið.


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistarinn

Með frænda hans SiggaHinir fjölmörgu aðdáendur meistarans geta nú rifjað upp nokkur ódauðleg gullkorn hér. Nú má ljóst vera að frændi minn dýrlingurinn var hafður fyrir rangri sök þegar þjóðin krafðist afsagnar hans. Nú er að sjá hvort upprisan lætur á sér standa.
 
 
Með Margarítu Með Silla

mbl.is Hinir vammlausu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefni framar persónum

Af persónulegum ástæðum sagði ég mig í gær úr stjórn Borgarhreyfingarinnar. Það geri ég ekki af neinum illdeilum við félaga mína í hreyfingunni heldur fremur vegna vonbrigða með hvernig innri átök hafa náð að spilla fyrir þeim mikla eldmóði sem lagt var af stað með í kosningabaráttunni. Á undraskjótum tíma virðist þinghópnum hafa tekist að gleyma helsta slagorði okkar "Þjóðin á þing" og farið að líta á sjálfa sig sem algjörlega ómissandi einstaklinga. "Það er ekki svo að maður komi í manns stað" svöruðu þingmennirnir þrír við tillögu stjórnarinnar um að láta varaþingmenn spila stærra hlutverk og létu það fylgja með að það væri ekki hægt að leggja það á þingmenn að fylgjast launalaust með umræðunni 3 mánuði á ári! Þráinn var heldur ekki til viðræðu með að hleypa að sínum varamanni vegna þess að hún var í of góðum tengslum við hin þrjú!

Stjórn hreyfingarinnar hefur verið vanmáttug að taka á þessum persónulegu árekstrum, að hluta til vegna þess að hlutverk hennar var ekki nógu skýrt, að hluta til vegna þess að hún var innbyrðis ósammála og að hluta til vegna einkennilegra árekstra milli stjórnar og þinghóps. Þinghópurinn tók ekkert mark á stjórninni og stofnaði meira að segja nýtt félag um starfsemi sína án samþykkis hennar.
 
Með óskiljanlegum og illa ígrunduðum ESB viðsnúningi Birgittu, Þórs og Margrétar dæmdu þremenningarnir sig úr leik sem trúverðugir fulltrúar kjósenda sinna og geta í framhaldi af því tæpast búist við að geta haft nokkur áhrif á framvindu mála í því mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar allrar. Yfirlýstur stuðningur við frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn reyndist marklaust gaspur og yfirklór Birgittu um að hún hefði talið þetta snúast um könnunarviðræður í besta falli hlægilegt.

En ég hef enn fulla trú á Borgarahreyfingunni því að gömlu flokkarnir hafa einfaldlega ekki siðferðislegan rétt til að sitja áfram við völd. Hvernig í ósköpunum á fólk að geta treyst Þorgerði Katrínu og Sjálfstæðisflokknum? Eða Björgvini G. og Samfylkingunni? Nýja-Framsókn, hvernig hljómar það? Þegar rannsókn á aðdraganda efnahagshrunsins verður komin á endastöð mun að mínu áliti ekki standa steinn yfir steini í gamla fjórflokknum.  Það væri miklu frekar að sómakært fólk innan þessara flokka segði skilið við þá og stofnaði nýjar stjórnmálahreyfingar með heiðarleg markmið. En því miður virðist "kerfið" éta börnin sín. Er það virkilega svo að "heiðvirt fólk" getur ekki sloppið óskaddað út úr hringiðu stjórnmálanna? 

Ég skora á alla þingmenn BH að tilkynna um að þau stigi til hliðar að loknu sumarþingi til að hleypa þjóðinni að. Borgarahreyfingin byggist á stefnu og málefnum en ekki ákveðnum einstaklingum eða leiðtogum. Erum við virkilega ekki sammála um það? Enginn skortur er á hæfileikaríku fólki á framboðslistum hreyfingarinnar og öll vorum við í sama bátnum fyrir 25. apríl sl. Vonandi dettur engum þeirra í hug að stela þingsæti sínu frá hreyfingunni í þeirri trú að þau sjálf séu svo ómissandi.

Stjórn BH á einungis að mínu mati úr því sem komið er að sjá til þess að landsþingið 12. og 13. september sé vel undirbúið og hvetja alla félagsmenn til dáða. Ný stjórn verður kosin á því þingi og augljóslega samþykktar nýjar vinnureglur og bætt innra skipulag sem vinnuhópur hefur unnið ötullega að. Ég óska þeim alls hins besta í þeim undirbúningi.
 
Með baráttukveðju,

Sigurður Hr. Sigurðsson.
 

mbl.is Vilja Þráin af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband