31.1.2010 | 15:09
Ekkert verið að tala undir rós
Max Keiser talaði skýrt og skorinort í þessu stórfína Skype-viðtali við okkar besta fjölmiðlamann. Hann bendir beint á glæpinn og glæpamennina en talar ekki undir rós eins og misvitrir stjórnmálamenn gera til að fela eigin vanmátt.
Það eru orðnir nokkuð margir áhrifamiklir fjölmiðlamenn erlendis sem ræða um Icesave málið á þessum nótum þó svo að fæstir komi sér eins beint að efninu og Max Keiser. Það væri stórkostlegt klúður að nýta ekki þennan óvænta meðbyr til að koma þjóðinni aftur á réttan kjöl og í leiðinni að vekja athygli á því hvernig siðspilltir fjármálamenn eru að spila með fjármálakerfi á vesturlöndum og víðar.
Einnig er athyglisvert að velta fyrir sér samanburðardæmum Þórðar Magnússonar í þættinum og spá í siðferði íslenskra banka- og stjórnmálamanna nú rúmu ári eftir hrunið. Ætlum við sem þjóð að halda áfram á sömu braut eða ætlum við að sýna sjálfum okkur og umheiminum að við séum lýðræðisþjóð með sterka réttlætiskennd?
![]() |
Segir Darling og Brown vera hryðjuverkamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2010 | 23:16
Lýðræði eða fáræði?
Fyrir kurteisis sakir óska ég efstu mönnum til hamingju með úrslit kosninganna. Ég er ánægður að sjá Hjálmar Sveinsson ná baráttusætinu og tel líklegt að einhverjir kjósi Samfylkinguna til að auka líkur hans á að ná kjöri í vor.
Mig langar að benda á það hversu brenglað lýðræði birtist okkur í þessum úrslitum. Í fyrsta lagi ákvað Samfylkingin líkt og Sjálfstæðisflokkurinn hver skyldi leiða listann og augljóslega vildu engir frambjóðendur rugga bátnum með því að skora ókrýndan leiðtoga á hólm.
Í öðru lagi voru þátttakendur í prófkjörinu einungis 2.656 eða 33,7% af kjörskrá. Í kosningunum 2006 kusu 29.721 einstaklingar lista Samfylkingarinnar í Reykjavík og ef sú tala helst nokkurn veginn óbreytt í vor má álykta að einungis 9% af kjósendum hafi í raun tekið þátt í uppröðun listans. Reyndar er sú tala líklega enn lægri því að nokkuð er um að fólk skrái sig til leiks af greiðasemi við einstaka frambjóðendur eða kjósi jafnvel í prófkjörum flestra flokka.
Þeir sveitarstjórnarmenn sem hafa talað hve mest á móti nýju frumvarpi um breytingu á kosningalögum mega til með að skammast sín fyrir að standa í vegi fyrir að kjósendur hafi raunverulega eitthvað um það að segja hverjir veljast sem fulltrúar í sveitarstjórnunum.
Svo er að lokum rétt að benda á að hlutfallslega sitja miklu færri fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur heldur en gerist og gengur í borgum og bæjum á Norðurlöndum. Reyndar hefur fjöldi fulltrúanna 15 ekkert breyst síðan í upphafi síðustu aldar þegar 6.321 íbúar voru í Reykjavík. Nú eru íbúarnir orðnir 118.665 og því eru 7.911 þeirra á bak við hvern kjörinn fulltrúa, ótrúlegt en satt!
![]() |
Átta atkvæði milli Bjarna og Dofra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.1.2010 kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2010 | 01:59
Stuðningsyfirlýsing

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2010 | 13:03
Er Valtýr úti á þekju?
Ég skrifaði færslu fyrir hádegi um fyrirspurn Borgarahreyfingarinnar vegna umræddrar ákæru, sjá hér.
Í lok færslunnar rifjaði ég upp þetta og bið fólk um að velta því fyrir sér hvers lags skemmdarverk hafa verið unnan á réttarkerfinu af kjörnum fulltrúum okkar á Alþingi og félögum þeirra innan flokkakerfisins.
Það hlýtur að teljast verulega öfugsnúið að helsti málsvari Íslendinga sé lífseig ekkja á sjötugsaldri frá Noregi sem hefur ekki legið á skoðun sinni en uppskorið ramakvein úr ýmsum áttum, s.s. - hér - hér - hér - hér - hér ....
![]() |
Ákæra afturkölluð vegna tengsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2010 | 11:03
Er ríkissaksóknari með allt sitt á hreinu?
Borgarahreyfingin hefur sett spurningarmerki við framgöngu ákæruvaldsins í þessu tiltekna máli. Það eina sem farið var fram á var álit sérfróðra fræðimanna um það hvort ákæran væri byggð á sanngjörnum forsendum og "viðeigandi" málsgrein í almennum hegningarlögum. Ekki var hlutast til um það hvort að mótmælendurnir væru sekir um refsiverða háttsemi eða saklausir. En sumum fannst þetta aðhlátursefni og ekkert er við því að gera.
Athygli hefur vakið að misræmis virðist gæta milli þess sem ríkissaksóknari segir og þess sem skrifstofustjóri Alþingis segir. Gott væri að fá úr því skorið hver það er sem raunverulega ákveður á grundvelli hvaða lagagreinar ákæran byggist. Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við HÍ og sérfræðingur í refsirétti sendi Borgarahreyfingunni svar við fyrirspurninni í gærkvöldi. Þar segir m.a.:
Samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála er það hlutverk handhafa ákæruvalds, þ. á m. ríkissaksóknara, að gefa út ákærur. Þá er það hlutverk þeirra að tryggja að þeir sem fremja afbrot verði beittir lögmæltum viðurlögum og meginreglan er sú að þeir taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds.
Í ákæru tiltekur ákærandi fyrir hvaða háttsemi er ákært og hvaða lagaákvæði hann telur eiga við um hana. Dómstólar skera síðan úr um hvort sakborningar hafi brotið gegn viðkomandi lagaákvæði, þ.e. um sekt þeirra eða sýknu. Þá er það meginregla í íslenskum rétti að ákveða refsingu neðarlega innan refsimarka lagaákvæða. Þótt lágmarksrefsing sé tiltekin í lagaákvæði er unnt að dæma vægari refsingu ef refsilækkunarástæður eru fyrir hendi og jafnvel ákveða að refsing skuli falla niður.

Svo má einnig rifja þetta upp og velta fyrir sér faglegum ráðningum innan réttarkerfisins í leiðinni. Einn helsti málsvari Íslendinga erlendis hefur allavega ekki legið á skoðun sinni en uppskar ramakvein úr ýmsum áttum.
![]() |
Eðlilegt að láta dómstóla dæma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2010 | 09:48
Skilaboð til VG
Vinstrihreyfingin - grænt framboð var stofnuð 6. febrúar 1999 og er rétt rúmlega 10 ára. Ég batt á sínum tíma miklar vonir við þessa hreyfingu, sérstaklega sem talsmaður náttúruverndar og umhverfismála. Það leið þó ekki langur tími þangað til á mig runnu tvær grímur og ég fór að efast um að græni liturinn væri þvottaekta eða mikið annað en fegrunaraðgerð á gamla Alþýðubandalaginu.
Nú þegar að VG sem ég héðan í frá kýs að kalla V hafa setið í ríkisstjórn í tæpt ár hljóta margir kjósendur þeirra að vera farnir að kreppa tærnar og efast um að flokkurinn sé allur þar sem hann er séður. Sem dæmi vill ég nefna að 2 þingmenn alvöru Græningja á Evrópuþinginu, þau Eva Joly og Alain Lipietz hafa bæði tekið málstað Íslendinga í Icesave málinu og komið með rök fyrir því að ESB þurfi að taka þátt í lausn deilunnar, ekki síst vegna þess að um ófullkomið regluverk var að ræða að þeirra hálfu.
Hins vegar hafa Grímur og hans flokkur ákveðið að berja hausnum við steininn og gefa lítið fyrir álit þessara dyggu Grænu stuðningsmanna á Evrópuþinginu. Einnig hefur hann og flokkur hans afrekað að svíkja eitt helsta kosningaloforðið sem var að standa á móti inngöngu Íslands í ESB. Undir ríkisstjórn S og V tútnar áliðnaðurinn út og gefið er út veiðileyfi á auðlindir landsins í þágu stóriðju. Ekkert bólar heldur á margboðuðum lýðræðisumbótum, stjórnlagaþingi, persónukjöri (sem V standa nú í vegi fyrir), gegnsæi eða að faglega sé tekið á málum.
Síðast en ekki síst virðist endanlega verið að ganga frá RÚV þannig að sú gamla góða ríkisstofnun sé algjörlega ófær um að sinna skyldum sínum. Stöðugt fleiri starfsmönnum er sagt upp og eftir standa stjórnendurnir strípaðir, sumir skipaðir á pólitískum forsendum árið 2010. Já, það er satt! Er virkilega eitthvað vit í að senda fjölmiðlafólk á atvinnuleysisbætur frekar en að halda þeim í starfi???
En mín skilaboð til VG eru þessi: Hættið að reyna að hanga saman á ónýtri límingu og kljúfið ykkur í V og G. Það er eflaust bæði eftirspurn eftir afturhaldssömum sósíalistaflokki og róttækum Græningjaflokki eins og ástandið er núna.
![]() |
RÚV harmar ályktun VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.1.2010 | 15:31
Um "jafnaðarmenn" og vini í raun
Það er gleðilegt að sjá að Marinó G. Njálsson hafi verið skipaður í samráðshóp um aðgerðir í þágu heimilanna. Þar eru Hagsmunasamtök heimilanna loksins komin með góðan talsmann sem eflaust mun tala máli fjölmargra sem eru að sligast undan stökkbreyttum húsnæðislánum.
Annars hlustaði ég forviða á 10-fréttir RÚV í fyrrakvöld. Þar var m.a. rætt við félagsmálaráðherra um skuldavanda margra sem komnir eru í þrot. Hér er inngangurinn að fréttinni:
"Félagsmálaráðherra segir það enga lausn fyrir skuldara að fresta nauðungaruppboðum á íbúðarhúsnæði enn og aftur. Það sé hagur skuldara að ljúka málum sem fyrst."
Eigum við að sætta okkur við þessa afstöðu ráðherrans? Tökum sem dæmi fjölskyldu sem hafði sparað saman 10 milljónir til kaupa á íbúð. Hún tók gengistryggt lán upp á 19 milljónir til 30 ára samkvæmt ráðleggingum viðskiptabankans og keypti íbúð fyrir 29 milljónir í byrjun ársins 2006. Lánið var um 2/3 hlutar af kaupverðinu. Sundurliðun frá bankanum gerði ráð fyrir að fjölskyldan greiddi 82.000 í afborganir á mánuði, nú 4 árum síðar. Fjölskyldan var varkár og reiknaði því með að gengi krónunnar gæti lækkað allt að 50 % sem þýddi mánaðarlegar afborganir upp á 123.000 í stað 82.000.
Raunveruleikinn er hins vegar sá að mánaðalegar afborganir eru nú um 210.000. Eftirstöðvar lánsins eru auk þess miklu hærri en áætlað verðmæti íbúðarinnar á núvirði. Fjölskyldan getur tæpast staðið í skilum og hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að spara öll nauðsynleg útgjöld til hins ítrasta svo þau geti staðið í skilum með afborganir af íbúðinni. Reyndar hefur hún tæpast nokkuð val því að enn sem komið er hafa ekki verið samþykkt lög um að fólk geti "skilað inn lyklinum". Vonandi tekst Lilju Mósesdóttur að finna nægilega marga "jafnaðarmenn" inni á Alþingi til að fá það réttláta frumvarp samþykkt á þinginu. Með nauðungaruppboðum nú myndu fjölskyldur væntanlega standa uppi eignalausar en með umtalsverðar skuldir á bakinu engu síður.
En hlustum á orð Árna Páls félagsmálaráðherra:
"Ég held að það sé ekki gott að frysta enn frekar nauðsynlegar ákvarðanir. Ef að hægt er að bjarga stöðu fólk er fresturinn vondur því að hann eykur bara á vandann."
Eins og margir aðrir velti ég því fyrir mér hvað maðurinn á við þegar hann talar um að "bjarga stöðu fólks". Það er deginum ljósara að innistæðueigendum var bjargað við hrun bankanna. Einnig var eigendum fjármuna í peningamarkaðssjóðum að miklu leyti bjargað við sama tækifæri þó svo að það kostaði seðlabankann og þ.a.l. ríkissjóð og almenning himinháar upphæðir. Eftir stendur það fólk sem lagt hafði sparifé og lánsfé í kaup á fasteignum. Hvar eru þeirra björgunaraðgerðir?
Til að gera málið enn ósanngjarnara eru sterk rök fyrir því að svokölluð "gengistryggð lán" brjóti í bága við vaxtalög nr. 38/2001 þar sem "heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður". Einnig má vísa til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 þar sem fram kemur að samningi megi víkja til hliðar ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hversu ósanngjarn þarf samningur eiginlega að vera til að falla undir þessa grein samningalaga? Þá er ótalinn þáttur bankanna í falli krónunnar en innan þeirra starfaði fólk við það eitt að hafa áhrif á gengi krónunnar til þess að bæta stöðu bankanna og ársfjórðungsuppgjör.
Félagsmálaráðherra telur hins vegar augljóslega að lausnin sé fólgin í nauðungaruppboðum og að losa fólk við eigur sínar sem fyrst. Flokkur hans hefur á tyllidögum kennt sig við jafnaðarstefnu. Eigum við ekki að velta því orði aðeins fyrir okkur?
![]() |
Samráðshópur fjallar um aðgerðir vegna hrunsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.1.2010 | 12:00
Eldfimt efni
Eva Joly mætti í Kastljósið 10. júní sl. og krafðist þess m.a. að Valtýr Sigurðsson færi frá sökum vanhæfis. Hún sagði þar m.a.:
"This is not possible to live with and in this society this has to be dealt with. We need a state prosecutor and we need him to be in full posession of his possibility of action. And also because when your parliamentarian commission will give the report in November [February], the state prosecutor will make the filter of what can be handled on to the special prosecutors office and then there must be no suspicion on how this work is done."
Það var líklega ekki að ástæðulausu að Eva Joly lagði svo mikla áherslu á að Valtý bæri að víkja. Nú hefur hann sent frá sér ákæru gegn 9 mótmælendum sem væntanlega verður bara sú fyrsta af mörgum. Uppþotin á þingpöllunum 8. desember voru eiginlega bara forsmekkurinn að því sem síðar átti sér stað. Varla verður vægar tekið á þeim mótmælendum sem harðast gengu fram þegar byltingin stóð sem hæst.
Í öllu falli hefur Valtýr að frumkvæði skrifstofustjóra Alþingis nú dreift mjög eldfimu efni sem fuðrað gæti upp við minnsta tilefni. Það er auðvitað reginhneyksli að yfirvöld skulu beita sér að fullum þunga gegn mótmælendum á sama tíma og fjárglæframenn sem eyðilögðu orðstír þjóðarinnar skuli fá að ganga frjálsir ferða sinna og lifa kóngalífi erlendis fyrir þýfið sem þeir komu undan.
Ætla Íslendingar virkilega að láta þetta yfir sig ganga???
Ég hvet alla til að sjá frábæra nýja heimildamynd Gunnars Sigurðssonar og Herberts Sveinbjörnssonar "Maybe I should have - Frásögn frá efnahagsundrinu Íslandi". Hún verður sýnd frá og með 5. febrúar í kvikmyndahúsum og lætur engan ósnortinn. Þessi mynd er gerð af sönnum harðjöxlum sem sitja ekki á rassgatinu og yppta öxlum þegar hvert hneykslið á fætur öðru skekur þjóðfélagið okkar og spillir áliti umheimsins á þeim sem hér búa.
![]() |
Mál mótmælenda þingfest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.1.2010 | 15:08
Verður staðan hans auglýst?
Þórhallur var ráðinn dagskrárstjóri við ohf væðinguna fyrir 3 árum síðan án þess að staðan væri auglýst. Hann var ekki ráðinn á faglegum forsendum heldur sökum vinskapar við Pál Magnússon. Hann fékk 800 þúsund í mánaðarlaun og varð á svipstundu nánast því einráður um innlenda dagskrárgerð hjá RÚV.
Nú þegar að nýr dagskrárstjóri verður ráðinn í stað Þórhalls verður fróðlegt að sjá hvernig að því verður staðið. Verður staðan auglýst eða ekki? Verður staðið faglega að meðferð umsókna eða ráðið á pólitískum forsendum? Verður nýjum dagskrárstjóra gefin öll þau völd sem Þórhallur hefur haft eða á að vinna faglega með skattfé almennings og fara eftir lögum um Ríkisútvarpið ohf þar sem segir m.a.:
Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:
1. Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
2. Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring. Enn fremur að birta valda hluta efnis síns, breytta eða óbreytta, ásamt öðru þjónustuefni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlum, þ.m.t. að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.
3. Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.
4. Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.
5. Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.
7. Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.
8. Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.
9. Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.
10. Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.
11. Að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps.
12. Að eiga eða leigja, sem og að reka, hvers konar búnað og eignir, þar á meðal tæknibúnað og fasteignir sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi félagsins.
13. Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.
Ég set öðru fremur spurningar við orðalagið "gæði og fjölbreytni", "að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa" og grein 5 eins og hún leggur sig. Síðan hvenær hefur RÚV sinnt þörfum minnihlutahópa eða haft í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi? Hvar er t.d. þjónusta RÚV við innflytjendur? Er ekki einmitt aðal forsenda þess að ríkið standi í rekstri sem þessum sú að þetta sé ekki eintóm afþreying og vinsældakeppni við einkareksturinn?
![]() |
Þórhallur hættir á RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.1.2010 | 14:34
Við sundin blá

![]() |
Úrslit í samkeppni um styttu af Tómasi kynnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |