Skýr skilaboð

Hverjir eru bestir?Besti flokkurinn ætti að sækja um fjárframlög frá stjórnmálaflokkunum eins og Jón Gnarr nefnir. Ég mun allavega styðja það að BH leggi eitthvað til málanna.

Fólk er búið að missa trú og traust á stjórnkerfinu, jafnvel þó að "grátskýrslan" hafi enn ekki litið dagsins ljós. Besti flokkurinn er "skilaboð" til stjórnmálaflokkanna og kerfisins. Fólk ætti að nýta sér tækifærið og láta  atvinnupólitíkusa með takmörkuð siðferðismörk fá það óþvegið.

 

Við þurfum nýja stjórnarskrá – Sjálfsprottið stjórnlagaþing fólksins.

 

Annars er hér glóðvolg áskorun frá BH til ríkisstjórnarinnar og Alþingis sem flestir fjölmiðlar sjá ekki ástæðu til að birta:

BH skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að setja nú þegar bráðabirgðalög til að fresta auðlindaframsali til Magma Energy Corp. í Kanada gegnum sölu á eignarhlut í HS-orku með milligöngu "skúffufyrirtækis" í Svíþjóð. Enn fremur fer BH fram á að öllum fjárfestingum einkaaðila í orkugeiranum verði skotið á frest uns lokið er endurskoðun á orkulöggjöfinni og laga um erlendar fjárfestingar.

Umræddur gjörningur sem klárlega gengur gegn markmiðum og anda íslenskra laga, jafnt sem laga ESB/EES, verður tæpast skilgreindur öðruvísi en "sniðganga". Nýleg dómaframkvæmd Evrópudómstólsins segir að einstök aðildarríki hafi vald til að stöðva misnotkun á evrópulögum sem gerð er til að sniðganga löggjöf viðkomandi ríkis, sérstaklega þegar almannahagur er í húfi. Orku- og auðlindaréttur fellur án nokkurns vafa undir þá skilgreiningu.

Viðskiptafrelsi innan Evrópu er fyrst og fremst fyrir aðila með raunverulega tengingu við Evrópu en ekki fyrir skúffufyrirtæki sem reyna að misnota löggjöf ESB/EES. Nefnd um erlenda fjárfestingu virðist vera að réttlæta sniðgöngu við íslensk lög með tilvísun til evrópulaga.

BH áréttar að auðlindaákvæði bráðvantar í stjórnarskrá Íslands og að það hafi sýnt sig í fjölmörgum ríkjum S-Ameríku og Afríku að framsal á náttúruauðlindum hafi haft hrikalegar afleiðingar fyrir fjárhag, afkomu og náttúru viðkomandi ríkja. Það er algjörlega óásættanlegt að nota skuli tímabundið atvinnuleysi og bága fjárhagsstöðu ríkisins og ýmissa atvinnugreina sem átyllu til að fórna sameiginlegum auðlindum okkar og vaxtarbroddi.

Með tilvísun til stefnu flestra íslenskra stjórnmálaflokka er brýn nauðsyn að standa vörð um allar auðlindir landsins og tryggja að arður af þeim komi almenningi til góða eftir að nauðsynleg umræða um verndun og sjálfbæra nýtingu hefur farið fram. Einskis skal látið ófreistað til að hindra að yfirráð þeirra komist í hendur aðila sem ekki bera hag og gæfu lands og þjóðar fyrir brjósti. Eignarnám kæmi þ.a.l. til greina á grundvelli 72. gr. núgildandi stjórnarskrár.
 

 


mbl.is Jón Gnarr: „Við stefnum hærra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband