Vonarland

Ég ólst upp með húsið Vonarland (Sogaveg 75) fyrir augunum öll mín uppvaxtarár. Foreldrar mínir byggðu sitt hús þar beint á móti um miðja síðustu öld meðan Sogamýrin var enn lengst uppi í sveit. Þá var Sogavegurinn holóttur malarvegur þar sem nokkrir sveitabæir stóðu, m.a. Vonarland, Réttarholt, Fagridalur, Brekka og fleiri.

Vonarland jólin 1975


Ingvar Helgason og Sigríður Guðmundsdóttir keyptu Vonarland um 1960 og bjuggu þar með stórum barnahópi, heildsölu og bílaumboði í kjallaranum. Eldri hluti hússins með kastalaþaki var upphaflega byggður 1926 en stórri viðbyggingu bætt við um miðjan sjötta áratuginn af Guðmundi Magnússyni byggingameistara sem hafði keypt húsið 1953. Þau Ingvar og Sigríður voru sérlega góðir og kærleiksríkir nágrannar og var ég svo heppinn að fá sumarvinnu hjá þeim frá 12 ára aldri og fram undir tvítugt, fyrst við garðyrkju og síðar við ýmis störf í fyrirtæki þeirra.

Garðyrkja og trjárækt var eitt helsta áhugamál Ingvars, enda lóðin að Vonarlandi býsna stór. Garðurinn var eins konar lystigarður sem skipt var upp í reiti og mikil vinna lögð í að halda honum snyrtilegum og fallegum. Ósjaldan tók Ingvar sér pásu frá erilsömu forstjórastarfi og settist upp á traktorsláttuvél eða rölti um garðinn og gróðursetti nýjar plöntur. Þá þýddi lítið fyrir sumarvinnumanninn að slugsa.

Nýir eigendur Vonarlands hafa áform um að jafna þetta stóra og glæsilega hús við jörðu og byggja tvær stórar blokkir á lóðinni með allt að 49 íbúðum. Það yrði dapurlegur minnisvarði um Ingvar Helgason og arfleið hans í þessu hverfi. Einnig stendur til að rífa lítið hús við hliðina sem byggt var 1942. Ég vona að hætt verði við þessi áform og velti því fyrir mér hvort að ekki sé hægt að finna öllum þessum íbúðum annan stað en þennan ágæta sælureit í Sogamýri.

 

Litla húsið


mbl.is Vilja tvö fjölbýlishús við Sogaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Óskemmtileg frétt.  Sjálfur átti ég heima þarna í "kastalanum" í um eitt ár, þegar foreldrar mínir þurftu að bregða búi um stund fyrir norðan vegna öskufalls frá Heklu (gaus 1970) og flúormengunar.

Jóhannes (IP-tala skráð) 15.3.2016 kl. 01:10

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég man vel eftir því, Jóhannes. En það hefur væntanlega verið dáldið þröngt um fjölskylduna þarna.

Sigurður Hrellir, 15.3.2016 kl. 11:58

3 identicon

Sæll Sigurður, Það verður kynningarfundur fimmtudaginn 31. mars kl. 17:00 í Borgartúni 14 í Vindheimun á 7. hæð vestur.

Steinþór (IP-tala skráð) 26.3.2016 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband