Réttlæti og sanngirni gagnvart hverjum?

Fram er komið margboðað lagafrumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra "um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara".

Frumvarpið felur í sér verulegar breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sem munu hafa miklar og í mörgum tilfellum afar slæmar afleiðingar fyrir lántakendur með gengistryggð húsnæðislán. Forsendur breytinganna eru dómar Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 sem báðir fjölluðu um uppgjör bílaláns sem er í meira lagi vafasamt að leggja til grundvallar fyrir öllum gengistryggðum lánum til lengri eða skemmri tíma.

Vert er að hafa í huga að þar sem gengistrygging lánanna var og er ólögmæt máttu kröfuhafar ekki uppreikna höfuðstól þeirra og afborganir. Það er því rangt sem oft og iðulega er haldið fram og nú síðast á minnisblaði með þessu frumvarpi þar sem segir:

“Skuldir heimilanna lækka um 40-50 milljarða króna við þessa aðgerð, að meðaltali um nærri eina og hálfa milljón á heimili með gengisbundið lán.”

Réttara er að skuldir heimilanna hækka umtalsvert þar sem búast má við því að fjölmargir geti ekki staðið undir þyngri greiðslubyrði allt frá lántökudegi og yrði því mismuninum bætt við höfuðstól lánanna eins og lýst er í 2.gr. frumvarpsins.

Í athugasemdum við 2. gr. segir m.a.:

“Með tilliti til jafnræðis og réttlætissjónarmiða er hér því lagt til að skuldurum veðlána, með ógildri gengistryggingu, standi til boða að greiða framvegis af lánum sínum sem þau væru verðtryggð.”

Samanburður á greiðslubyrðiErfitt er að koma auga á þau réttlætissjónarmið sem í þessu felast, enda voru lánafyrirtækin að bjóða mun hagstæðari kjör og lægri vexti með myntkörfulánum en áður voru í boði á Íslandi. Líklegt verður að teljast að margir lántakendur hefðu alls ekki tekið svo há lán sem raun bar vitni ef einungis verðtryggð lán hefðu verið í boði.

Frumvarp þetta er lagt fram á sama tíma og tekist er á um fyrstu álitamálin sem varða gengistryggð húsnæðislán fyrir Hæstarétti. Erfitt er að sjá það fyrir hvernig dómarar muni bregðast við frumvarpinu verði það samþykkt, en augljóslega eru ítarlegar greinargerðir málsaðila miðaðar við allt önnur lög en frumvarpið hefur í för með sér. Lagagrundvelli yrði þ.a.l. kippt undan málsaðilum.

Loks er ástæða til að minna á skattalega óvissu sem gæti skapast vegna frumvarps þessa. Háar upphæðir munu skipta um hendur eða færast til í bókhaldi þegar lán verða endurútreiknuð miðað við nýjar forsendur. Ekki virðist vera hugsað fyrir öllu því flækjustigi sem gæti skapast varðandi skattalega meðferð í kjölfarið. Má því búast við að skuldarar þurfi fyrst að standa í tímafreku þrasi við kröfuhafa sem sumir eru í þrotameðferð og í framhaldi af því að eiga við skattayfirvöld um leiðréttingar sinna mála.

Myndin sýnir greiðslubyrði af 19,2 milljóna dæmigerðu gengistryggðu húsnæðisláni til 30 ára, tekið í janúar 2006. Línurnar sýna greiðslubyrði m.v. afborganir á 3ja mánaða fresti fram til apríl 2010 og ber himinn og haf á milli þess sem upphafleg áætlun bankans spáði fyrir (dökka línan) og þess sem fyrirhugaðar lagabreytingar hafa í för með sér (gula línan). Bleika línan sýnir þá greiðslubyrði sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu og bankinn innheimti í trássi við gildandi lög, (á tímabili voru einungis greiddir vextir). Dæmi þetta sýnir fáránleika þess að líta á úrskurð Hæstaréttar frá 16. september 2010 sem fordæmisgefandi fyrir öll gengistryggð lán en frumvarp þetta byggir að verulegu leyti á þeim úrskurði.


mbl.is Gengislánafrumvarp lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bara sjónarspil. Ef svo ólíklega vill til að þetta viðriðni verði samþykkt, þá hljóta allir sem telja sig tapa á þessum afturvirku lögum að geta sótt mismuninn til ríkisins. Dómarar dæma sennilega eftir sem áður eftir þeim lögum sem í gildi voru við undirritun samnings. Fljótt á litið verður þetta bara til að flækja málin enn frekar og auka á réttaróvissuna.

TumiT (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 20:35

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk fyrir greinagóðar upplýsingar.

Sigurður Haraldsson, 11.11.2010 kl. 20:54

3 identicon

Tekjutenging lífeyris og örorkuþega erlendis er gengistryggð. Vildi óska að viðskiftavinir tryggingastofnunar einnig fengu sínar erlendu tekjur reiknaðar á sama gengi sem er í boði fyrir viðskiftavini bankanna. Bankarnir eru ríkisreknir eins og Tryggingastofnun , afhverju gilda ekki sömu reglur fyrir viðskiftavini TR sem og viðskiftavini Bankana?

 Ég hef 120.000 dk.kr í laun á ári. Fyrir gengishrunið var það cirka 1,3 miljónir ísk og nú eru nákvæmlega sömu tekjur metnar til (fyrir árið 2010) 2.9 miljóna! .. Ég veit við ekki erum margir elli og örorkulífeyrisþegar her í danmörku og öðrum löndum en ég vona að þeir peningar sem ríkið sparar á okkur komi þjóðinni til góða. 

Kannski vill ríkið dreyna eignir bankanna svo að  ríkið ekki þurfi að borga reikningin fyrir að bregðast fólkinu í landinu..? ..

Freyja (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 21:42

4 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Hef áður skrifað um gengistryggð lán og ósvífni fjármálastofnanna

getið litið á mitt blob eða litið á http://bloggheimar.is/joelsson

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 12.11.2010 kl. 08:47

5 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

blog átti það að vera :)

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 12.11.2010 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband