Úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, 8. bindi bls. 19-21

"Öllum vinnureglum vikið til hliðar"

Eftir að ljóst var að áhugi erlendra banka væri ekki fyrir hendi komst einkavæðingin aftur á skrið með bréfi Samson-hópsins til ríkisstjórnarinnar 27. júní 2002 þar sem hópurinn óskaði eftir að kaupa ráðandi hlut í Landsbanka, eða a.m.k. þriðjung, en Samsonhópurinn samanstóð af Björgólfi Guðmundssyni, Björgólfi Thor Björgólfssyni og Magnúsi Þorsteinssyni. Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka, telur að upphaflega hafi Samson haft áhuga á að kaupa Búnaðarbankann en þeim hafi verið beint að Landsbankanum og sama kom fram í skýrslu Steingríms Ara Arasonar. Björgólfur Guðmundsson kannast aftur á móti ekki við þá lýsingu, þeir hafi fyrst og fremst haft áhuga á Landsbankanum enda fundist hann virðulegri stofnun: "[V]ið lögðum bara áherslu á Landsbankann [...], en hefðum vel getað hugsað okkur Búnaðarbankann, ekkert að því."

Í kjölfarið var ákveðið að auglýsa stóra hluti í báðum bönkunum til sölu og tilboð bárust frá nokkrum íslenskum aðilum í hvorn banka. Hjólin voru farin að snúast fyrir alvöru og nú hyllti undir lok einkavæðingarferlisins sem hófst árið 1997.

Steingrímur Ari Arason, sem var í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 þar til hann sagði skyndilega af sér 2002 í kjölfar ákvörðunar um sölu til Samson, sagði í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að eftir að áhugi Samson hefði orðið kunnur hefði verið vikið af þeirri braut sem einkavæðingarnefnd hefði unnið eftir frá upphafi. Hlutverk nefndarinnar hefði verið að móta mögulegar leiðir til að leggja fyrir ráðherranefnd en á þessum tímapunkti hefði vægi hennar breyst og ráðherrar farið að gefa henni fyrirmæli og "það séu í rauninni Halldór og Davíð sem [...] taki ákvarðanir". Steingrímur Ari telur jafnframt að ákvörðun um hverjum ætti að selja bankana hafi legið fyrir hjá ráðherrunum áður en hlutir bankanna voru auglýstir.

Samkvæmt lýsingu Steingríms Ara var horfið nánast frá öllum helstu verklagsreglum einkavæðingarnefndar á þessum tímapunkti. Segir hann að ákveðið hafi verið að selja báða bankana samtímis þrátt fyrir að nefndin hafi ekki talið Búnaðarbankann kláran í ferlið á þessum tíma. Þá hafi ætíð verið lögð mikil áhersla á að verðið ætti að ráða, en gengið hafi verið að tilboði Samson sem ekki var með hæsta verðið. Ekki nóg með þetta, heldur hafi matslíkanið verið búið til eftir á þar sem ráðherrar hafi í raun fengið frjálsar hendur um það hvernig einstökum þáttum var deilt upp og að starfsmaður nefndarinnar hafi hitt erlenda ráðgjafa til þess að "sitja með þeim yfir því hvernig eigi að stilla upp matslíkaninu". Að hans mati var gengið allt of langt í því að meta aðra þætti en verðið inn í ákvarðanamódelið. Steingrímur Ari segir að í vinnureglum einkavæðingarnefndar hafi verið ákvæði um að hægt væri að veita undanþágu frá einstökum reglum en skilningur nefndarmanna hafi verið sá að því yrði einvörðungu beitt ef ríkar ástæður væru fyrir hendi. "[E]n þegar að þarna er komið að þá er í rauninni búið á grundvelli þessa undanþáguákvæðis að víkja sko öllum vinnureglunum til hliðar."

Kornið sem fyllti mælinn hjá Steingrími Ara var fyrirvarinn sem Samson setti í tilboð sitt um mismunandi mat á útlánum bankans og hugsanlegar afskriftir sem kæmu mögulega til lækkunar á tilboðinu. "[M]ér fannst það ekki bara viðeigandi að ríkið sem minnihlutaaðili, auðvitað sem sagt ráðandi aðili en sem minnihlutaaðili í bankanum sko færi að veita mögulegum kaupanda aðgang að þessum upplýsingum, hugsið ykkur, þetta eru viðkvæmustu upplýsingar sem eru innan bankans, það er staða stórra aðila sem að mögulega þarf að afskrifa. Og hvers vegna? Vegna þess að menn höfðu ekki passað nógu vel upp á það o.s.frv. Þannig að mér fannst þetta í alla staði bara sem sagt fráleitt." Þrátt fyrir andstöðuna við fyrirvarann var honum skýrt frá því að ákvörðun hefði verið tekin og farið yrði í viðræður við Samson eða engan.Í ofangreindri tilvitnun kemur fram að Samson hafi fengið viðkvæmar upplýsingar úr Landsbankanum áður en gengið var til samninga.Vignir Rafn Gíslason, endurskoðandi Landsbankans, lýsir því hvernig hann kom að skoðun á Búnaðarbankanum á sínum tíma. "Þá vorum við fengnir til að gera áreiðanleikakönnun á Búnaðarbankanum fyrir hönd einkavæðingarnefndar eða, já og bankans að sjálfsögðu.Við vorum ekki að vinna fyrir kaupendur, þetta var öðruvísi sett upp heldur en inni í Landsbankanum því að þar fóru endurskoðendur, þið áttið ykkur á því, þar fóru endurskoðendur Samson inn í Landsbankann við einkavæðinguna og fengu að grautast í honum."Stjórnvöld höfðu fram að þessu sýnt áhuga á að eignarhald bankanna yrði dreift, en nú var horfið frá þeim áformum.Vafalaust hafði hér áhrif kennitölusöfnunin í tengslum við einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og átökin sem fylgdu í kjölfarið.

Frásagnir þeirra sem komu að einkavæðingunni sýna hvernig ítrekað var farið á svig við vandaða starfshætti. Skýrum verklagsreglum er ætlað að tryggja vönduð vinnubrögð, gegnsætt ferli og aga þá sem taka þátt í ferlinu. Þær gera þó lítið gagn nema eftir þeim sé farið. Þrátt fyrir yfirlýstan vilja í upphafi til að vanda til verka við einkavæðinguna voru þær reglur sem Alþingi setti um einkavæðinguna opnar og gáfu stjórnvöldum möguleika á að haga málum eftir eigin höfði. Afleiðingarnar voru þær að ferlið var ekki gegnsætt sem hefur gefið tilefni til tortryggni og grunsemda um að mikilvægum upplýsingum hafi verið leynt eða pólitísk sjónarmið hafi ráðið ferðinni.

Starfræksla stóru bankanna skiptir almannahagsmuni miklu og því er ekki viðunandi að þannig hafi verið staðið að verki. Ekki aðeins var hér um að ræða verðmæt fyrirtæki í opinberri eigu heldur fjármálastofnanir sem höfðu mikilvægt samfélagslegt hlutverk og voru ákveðin kjölfesta í íslensku atvinnulífi. Þá áttu stjórnvöld eftir að heita þeim stuðningi sem færði ábyrgðina á starfrækslu þeirra til ríkisins og þar með til almennings. Af þessum sökum skipti öllu máli að vel væri að verki staðið við einkavæðingu þeirra og að ferlið væri gegnsætt og opið.

Af hverju opnaði maðurinn ekki munninn fyrr? Yfirhylming er refsivert athæfi en burtséð frá því sýnir þetta ljóslega hvernig "þægir" embættismenn starfa. Kerfið er yfirfullt af þeim. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband